Gleymdist lykilorðið ?

NIXON Í KÍNA

NIXON IN CHINA, 2011

Frumsýnd: 12.2.2011
Dreifingaraðili: SAMfilm
Tegund: Ópera
Lengd: 4h 00 min
Aldurstakmark: Leyfð
|

John Adams

Nixon í Kína

Textar eftir Alice Goodman

Fyrsti þáttur:

Flugvöllur fyrir utan Peking í Kína. Þetta er kaldur, heiðskír og þurr morgunn, 21. febrúar 1972. Sendinefnd frá landher, flota og flugher gengur um flugvöllinn og syngur um ,,Þrjár meginreglur agans og átta mikilvæg atriði sem hafa skal í huga.” Chou En-lai, forsætisráðherra Kínverja, gengur ásamt erindrekum inn á flugbrautina þegar forsetaflugvélin birtist. Eftir lendingu stígur Nixon forseti frá borði. Þeir takast í hendur og forsetinn syngur að hann sé bæði spenntur og kvíðafullur.

Klukkustund síðar hittir Nixon Maó leiðtoga. Í samtalsvopnabúri Maós má finna heimspekileg spakmæli, óvæntar pólitískar athugasemdir og skrýtlur með boðskap en allt sem hann syngur er endurtekið af skósveinum hans og forsætisráðherranum. Það er erfitt fyrir Vesturlandabúa að koma sínu á framfæri í slíkum samræðum.

Eftir fundinn með Maó er blásið til mikillar veislu þar sem allir eru hæstánægðir með daginn. Forsetinn og frú Nixon ná að skiptast á nokkrum orðum áður en Chou forsætisráðherra heldur fyrstu ræðu kvöldsins, en hún er tileinkuð bræðralagi og föðurlandsást. Nixon svarar og lyftir glasi fyrir kínversku þjóðinni og vonum um frið. Veislan heldur áfram, þótt dragi úr formlegheitunum, fram eftir kvöldi.

Annar þáttur:

Jörðin er snævi þakin eftir nóttina. Um morguninn er frú Nixon leidd fram á sviðið af hópi leiðsögumanna og fréttamanna. Hún útskýrir hvernig það er fyrir konu af hennar sauðahúsi að vera forsetafrú og tekur á móti glerfíl frá verkamönnunum í glersmiðjunni. Hún heimsækir kommúnu og Sumarhöllina, þar sem hún nemur staðar við Hlið langlífis og góðvildar til að syngja um spádómsgildi hliðsins. Síðan heldur hún að Ming-grafhýsinu áður en sólin sest.

Um kvöldið eru Nixon-hjónin viðstödd flutning á ,,Rauðu kvennahersveitinni”, byltingarballett sem Jiang Qing, eiginkona Maós, hefur skipulagt. Ballettinn fléttar saman hugmyndafræðilega ráðvendni og tilfinningasemi í anda Hollywood. Nixon-hjónin eru heilluð og ná tengingu við kúgaða bændastúlkuna; reyndar heillast þau af mætti hinna einföldu dyggða. Þetta var ekki beinlínis það sem Jiang Qing hafði í huga. Hún syngur ,,Ég er eiginkona Maós Zedong” með heilan kór á bak við sig.

Þriðji þáttur:

Lokakvöldið í Peking. Pompi og prakt forsetaheimsóknarinnar er lokið og allir halda í herbergin sín til að njóta einverunnar. Talið berst að minningum um hið liðna. Maó dansar við konuna sína og Nixon-hjónin minnast fyrstu ára hjónabandsins, í seinni heimsstyrjöldinni, þegar Nixon var sjóliðsforingi á Kyrrahafi. Chou endar óperuna á spurningunni um hvort nokkuð gott hafi hlotist af heimsókninni.