Gleymdist lykilorðið ?

Bad Grandpa

Frumsýnd: 25.10.2013
Dreifingaraðili: SAMfilm
Tegund: Gaman
Lengd: 1h 32 min
Aldurstakmark: Bönnuð innan 12 ára
|

Nýjasta myndin sem kennd er við Jackass-gengið er sprenghlægileg blanda af leiknum atriðum, skipulögðum fíflalátum og földum myndavélum.

Myndin heitir Bad Grandpa og er mitt á milli þess að vera bíómynd og bjánaskapur þar sem venjulegu, grunlausu fólki er fléttað inn í grínið í alls kyns óvæntum uppákomum.

Johnny Knoxville, Jackass-maður númer eitt, leikur hinn 86 ára gamla Irving Zisman sem tekur að sér að koma átta ára sonarsyni sínum Billy (Jackson Nicoll) til föður síns sem býr í öðru fylki. Þeir

kumpánar leggja í hann og á leiðinni veldur sá gamli ýmsum óskunda sem er sennilega ekki til eftirbreytni fyrir ungdóminn en stórskemmtilegur fyrir áhorfendur enda ganga flest uppátækin út á að koma grunlausum samborgurum á óvart og hneyksla þá í mörgum tilfellum upp úr skónum.

Stiklan úr myndinni er bráðfyndin ein og sér og í henni má sjá brot af nokkrum þeirra hrekkja sem afinn smekklausi og sonarsonur hans standa fyrir, sem aftur gefur góða vísbendingu um það sem koma skal í myndinni sjálfri.

Punktar:

• Leikstjóri myndarinnar, Jeff Tremaine, hefur verið með Jackass-genginu frá upphafi og er reyndar einn af stofnendum þess ásamt Johnny Knoxville og Spike Jonze. Hann leikstýrði flestum hinum Jackass-myndunum og sjónvarpsþáttunum þannig að óhætt er að fullyrða að hann sé vel með á nótunum.

Bad Grandpa verður frumsýnd þann 25. október og á vafalaust eftir að njóta mikilla vinsælda, enda fátt fyndnara en vel útfærðir hrekkir sem hitta beint í mark.

Leikstjóri: Jeff Tremaine