Need For Speed
Lengd: 2h 10 min
Need For Speed sækir eins og heitið gefur til kynna innblásturinn í samnefndan tölvuleik sem notið hefur gríðarlegra vinsælda um árabil og snýst um hraða og aftur hraða.
Það kvikmyndaáhugafólk sem gaman hefur af hasar, hraða og þá sérstaklega bíla- og kappakstursatriðum á von á góðu í mars þegar Need For Speed verður frumsýnd. Í aðalhlutverki er Aaron Paul sem aðdáendur sjónvarpsþáttanna Breaking Bad ættu að kannast við, en hann var einmitt tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir besta leik í aukahlutverki í þeim þáttum. Með önnur stór hlutverk fara þau Dakota Johnson, Imogen Poots, Dominic Cooper, Scott Mescudi og Michael Keaton, en leikstjóri er Scott Waughn.
Myndin segir frá vélvirkjanum Tobey Marshall sem er nýsloppinn úr fangelsi þar sem hann sat inni fyrir verknað sem hann er saklaus af. Allan tímann sem hann hefur setið inni hefur aðeins eitt komist að í huga hans og það er að ná fram hefndum á manninum sem ber ábyrgð á fangelsisvist hans. Einn liðurinn í þeirri áætlun er að taka þátt í kappakstri þvert yfir Bandaríkin, en málin vandast þegar andstæðingur hans leggur 6 milljónir dollara til höfuðs honum sem leiðir til þess að Tobey getur hvergi verið öruggur og kappaksturinn snýst upp í æsilegan eltingarleik upp á líf eða dauða ...