Teenage Mutant Ninja Turtles
Lengd: 1h 41 min
Þeir skjaldbökubræður sem búa í holræsum New Yorkborgar og koma upp á yfirborðið til að berjast við vont fólk og geimverur komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 1984 í teiknimyndasögu eftir tvo unga listamenn, þá Kevin Eastman og Peter Laird. Upphaflega var þetta grínádeila á aðrar teiknimyndahetjur en sögurnar öðluðust brátt óvæntar vinsældir og fljótlega voru ninja-skjaldbökurnar orðnar að vinsælum leikföngum auk þess sem bæði teiknaðir og leiknir sjónvarpsþættir voru gerðir um ævintýri þeirra. Árið 1989 gerði Konami síðan tölvuleik úr sögunum.
Fyrsta bíómyndin var gerð árið 1990 og náði miklum vinsældum. Síðan hafa fleiri myndir verið gerðar og nú er sem sagt komið að þeirri nýjustu sem eins og áður sagði er framleidd af Michael Bay. Myndin er ekki framhald heldur glænýtt upphaf ævintýrsins þar sem skjaldbökurnar og fréttakonan April O’Neil hittast í fyrsta skipti en hún og þeir ninjabræður áttu síðar eftir að mynda með sér órjúfanlega vináttu og samstarf í baráttunni við alls kyns óþjóðalýð.
Myndin gerist einhvern tíma í framtíðinni þegar skuggi ógnar og ótta hvílir yfir hinni fyrrum glæstu borg, New York. Ábyrgðina á ógninni ber hin gríðarlega öfluga geimvera Shredder sem getur breytt sér í mannsmynd og ætlar sér að verða einvaldur á jörðu. Einu mistökin sem hann gerir er að reikna ekki með ninja-bræðrunum sem undir leiðsögn lærimeistara síns, rottunnar Splinters, eru ákveðnir í að láta geimskrímsli eins og Shredder ekki komast upp með neitt múður ...