Hitman: Agent 47
Lengd: 1h 36 min
Spennumynd byggð á tölvuleikjunum vinsælu. Leigumorðingi slæst í för með konu og hjálpar henni að finna föður sinn og komast að leyndarmálum sem varða ætterni hennar. Hitman: Agent 47 segir frá leigumorðingja sem kallast bara 47 og á að baki flekklausan feril sem gerir hann að fyrsta kosti þeirra sem þurfa á þjónustu leigumorðingja að halda – og hafa efni á þjónustu hans. Í raun er 47 klónaður og frá upphafi þjálfaður til að verða besti leigumorðingi í heimi enda býr hann að ótrúlegum styrk og gáfum sem gera hann að óvinnandi andstæðingi. Snjallasti, fimasti, hraðasti og sterkasti leigumorðingi í heimi þarf nú að takast á við gríðarlega öflug leynisamtök sem ætla sér að komast að leyndardómum hans og búa til sinn eigin her af morðingjum. Hitman: Agent 47 er eins og margir vita byggð á samnefndri leikjaseríu frá danska fyrirtækinu IO Interactive, en Hitman-leikirnir hafa notið gríðarlegra vinsælda allt frá því að sá fyrsti, Codename 47, kom út árið 2000. Myndin er ekki framhald af 2006-myndinni Hitman heldur er um að ræða svokallað „reboot“ þar sem kvikmyndagerð sögunnar er hugsuð og útfærð upp á nýtt. Það er Rubert Friend sem fer með hlutverk leigumorðingjans sem er þekktur sem númer 47, í samræmi við húðflúrið aftan á hálsi hans. 47 er klónaður og frá upphafi þjálfaður sem bardagamaður sem engin bönd fá haldið. Hann er ofurfimur, gríðarlega snöggur, afar gáfaður og sterkur eins og naut. Þegar 47 uppgötvar að öflug leynisamtök vilja komast að því hvernig hann sjálfur var búinn til svo þau geti búið til sinn eigin her af jafnöflugum morðingjum og hann er snýst hann til varnar ásamt ungri konu sem býr yfir meiri þekkingu og hæfileikum en hún hefur nokkurn tíma gert sér grein fyrir.