Gleymdist lykilorðið ?

Alvin og íkornarnir 3

Frumsýnd: 16.12.2011
Dreifingaraðili: Sena
Tegund: Teiknimynd
Lengd: 1h 30 min
Aldurstakmark: Leyfð
|

Alvin og krúttlegu félagarnir hans Símon og Theódór ásamt Birgittu, Elínborgu og Jónínu eru mætt aftur til leiks í jólamyndinni í ár og hafa aldrei verið hressari, kátari, stríðnari og hræddari. Fyrstu tvær myndirnar um Alvin og félaga slógu hressilega í gegn og samanlagt sáu tæplega 60 þús manns þær tvær, enda frábærar barnamyndir sem höfða einnig sterkt til fullorðinna. Húmorinn er kostulegur, persónurnar sprelllifandi og blöndun teikninga og leikinna atriða einstaklega vel gerð.

Í þetta sinn lenda Alvin og félagar hans í stórkostlegasta ævintýri til þessa þegar Davíð, velgjörðarmaður þeirra, ákveður að bjóða þeim með í siglingu um suðræn höf í stóru skemmtiferðaskipi.

Gamanið kárnar hins vegar þegar leikur Alvins og hinna íkornanna með flugdreka einn, stóran og mikinn, endar með því að hann sviptir þeim fyrir borð. Sem betur fer fyrir íkornana komast þeir upp á eyju sem í fyrstu virðist í eyði. Þar með hefst ævintýri númer tvö í einni og sömu myndinni en vandamálið í þetta sinn er að það er ekki víst að Alvin og hinir íkornarnir eigi nokkurn tíma eftir að komast heim aftur!

Myndin er sýnd með íslensku tali og fór talsetning fram í Stúdíó Sýrlandi í leikstjórn Rósu Guðnýjar Þórsdóttur. Með helstu hlutverk í talsetningunni fara Orri Huginn Ágústsson, Atli Rafn Sigurðarson, Víðir Guðmundsson sem talar fyrir Alvin, Ólafur S.K. Þorvaldz sem talar fyrir Símon og Bjartmar Þórðarson sem talar fyrir Theódór. Þrúður Vilhjálmsdóttir talar fyrir Birgittu, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir talar fyrir Elínborgu og Inga María Valdimarsdóttir fyrir Jónínu.

Missið ekki af þessari frábæru og stórskemmtilegu mynd fyrir alla fjölskylduna!