Avatar (Re-Release)
Lengd: 2h 45 min
Sambíóin munu endursýna stórmyndina Avatar áður en framhaldsmyndin Avatar: The Way of Water kemur í bíó 16. desember. Myndin segir frá fyrrum hermanninum Jake Sully sem lamaðist í bardaga á Jörðinni og er bundinn við hjólastól. Er hann sendur út í geim til að taka þátt í Avatar-verkefninu á fjarlægri plánetu sem heitir Pandora. Er það undurfögur, skógi vaxin pláneta sem býr yfir miklu magni af verðmætum málmi. Er ætlun jarðarbúa að nýta þær auðlindir sem þar eru og græða óheyrilega í leiðinni. Hins vegar stendur eitt vandamál í vegi fyrir þeim: þeir sem búa þar. Á Pandoru býr ættbálkur vera sem líkjast manninum í útliti og nefnast Na‘vi. Eru þær taldar frumstæðari en mannfólkið, þrátt fyrir að vera með líkamlega yfirburði. Na‘vi búa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og vilja alls ekki flytja sig um set svo mannfólkið geti nýtt málmana sem leynast undir heimkynnum þeirra. Því er Jake fenginn til að taka þátt í verkefni þar sem líkami hans er sameinaður líkama Na‘vi og hann sendur til plánetunnar sem svokallaður Avatar til að njósna fyrir hermennina sem eru að undirbúa árás á frumbyggjana. Þegar Jake kynnist og verður ástfanginn af hinni fallegu Na‘vi-prinsessu Neytiri flækist leikurinn og hann þarf að ákveða hvoru megin víglínunnar hann ætlar að standa.